Háskóli Íslands

Félagar

Fastir kennarar í heimspeki við Háskóla Íslands eru félagar í Heimspekistofnun:

Aðrir félagar í Heimspekistofnun:
 

Elmar Geir Unnsteinsson

Titill: Ruglaðar ætlanir

Tímabil: 2016-2020

Styrkt með Verkefnastyrk frá Rannsóknasjóði Rannís

Aðalrannsakandi: Elmar Geir Unnsteinsson. Heimasíða: https://elmargeir.net/

Lýsing:

Markmið verkefnisins er að þróa nýja kenningu um merkingarfræði tilvísunarliða. Gengið er út frá svonefndri „ætlunarhyggju“ en samkvæmt henni er inntak málgjörðar ákvarðað af „samskiptaætlun“ mælandans. Þá er inntak einkvæmra tilvísunarliða ákvarðað af tilvísunarætlun mælandans. Ætlunarhyggja hefur átt miklu fylgi að fagna og er vel studd af rannsóknum í merkingarfræði og málspeki. Þó hafa fleiri og fleiri fræðimenn fært þau rök gegn ætlunarhyggju að hún geti ekki gert grein fyrir dæmum um ósamkvæmar ætlanir. Rök þessi hafa enn ekki verið tekin það til gagngerrar skoðunar. Því er markmið verkefnisins að færa ítarleg rök fyrir ætlunarhyggju, þar sem téð vandamál eru tekin til greina. Aðferðafræðin felst í því að viða að sér þeim gögnum sem notuð hafa verið af andstæðingum ætlunarhyggju og gagnrýna ýmsar forsendur sem koma í ljós þegar rökin eru athuguð. Þessar forsendur hafa verið samþykktar gagnrýnilaust af býsna mörgum. Við setjum fram aðra nálgun á viðfangsefni merkingafræðinnar, sem leggur áherslu útskýringarhlutverk hennar, en sú nálgun er mun líklegri til árangurs. Á þessum grundvelli má svo setja fram ætlunarbyggða kenningu um tilvísun sem sneiðir alfarið hjá vandanum um ósamkvæmar ætlanir.

Heimasíða verkefnisins: https://confusedintentions.com/

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur

Veruleiki peninga (The Reality of Money)

Veruleiki peninga er rannsóknarverkefni hjá Heimspekistofnun undir forystu Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, sérfræðings. Það er frumspekileg rannsókn á peningum og peningalegu gildi, tileinkað rannsókn á frumspekilegum grundvelli valdsins sem peningar fela í sér og hvað það felur í sér að hlutir hafi peningalegt gildi. Peningar hafa mikið vald yfir okkur, við skipuleggjum líf okkar með tilliti til tækifæra til að vinna okkur inn og nota peninga og samfélagið er einnig skipulagt með tilliti til þeirra. Til að skilja betur þetta hreyfiafl eru ýmsar grundvallarspurnngar skoðaðar varðandi tilvist peninga. Áherslan er á peninga sem samfélagsfyrirbæri og þeir bornir saman við aðra hluti og stofnanir í samfélaginu. Verkefnið felur í sér ritun bókar Eyju M. Brynjarsdóttur The Reality of Money sem gefin verður út hjá Rowman and Littlefield sem og doktorsverkefni Gunnars Sigvaldasonar í heimspeki við Háskóla Íslands. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Íslands. Samstarfsaðilar við HÍ eru Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent í sálfræði, og Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði.

Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar (Feminist Philosophy Transforming Philosophy)

Femínísk heimspeki og umbreyting heimspekinnar samanstendur af rannsóknum undir forystu Sigríðar Þorgeirsdóttur, prófessors, og Eyju Margrétar Brynjarsdóttur, sérfræðings. Auk þeirra taka þrír doktorsnemar þátt, þau Nanna Hlín Halldórsdóttir, Ole Sandberg og Steinunn Hreinsdóttir. Verkefnið myndar kenningagrunn fyrir rannsóknir þeirra. Lögð er áhersla á mannskilning sem er næmari fyrir kynjabreytileika sem og öðrum breytileika en sá karllægi mannskilningur sem verið hefur við lýði í aldanna rás innan heimspekinnar. Kyn hefur löngum verið ósýnileg breyta í heimspeki og gengið út frá karllægu sjónarhorni sem hinu almenna. Eitt helsta verkefni femínískrar heimspeki hefur verið að afhjúpa þessa breytu þar sem hún er til staðar og ögra þannig viðteknum hugtakakerfum. Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er ritun bókar um hvernig femínísk getur umbreytt heimspekinni sem fræðigrein. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Íslands.

Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum

Megináherslan í rannsóknum Geirs er á þvermenningarlega heimspeki, þá einkum heimspeki sem teflir saman kínverskum og vestrænum hefðum. Þar hefur konfúsíanismi verið einna mest áberandi, jafnt að fornu sem nýju, enda má telja þá stefnu helsta sérsvið Geirs, en jafnframt beinir hann sjónum sínum að öðrum kínverskum heimspekistefnum, t.d. daoisma, móisma og að nokkru leyti búddisma. Hin þvermenningarlega vídd birtist einkum í þeirri viðleitni hans að bera saman og ekki síst samþætta asískar heimspekihefðir og þær vestrænu, einkum forngríska heimspeki og seinni tíma meginlandsheimspeki, til að draga fram og skerpa þá möguleika sem leynast innan viðkomandi hefða en einnig stundar hann rannsóknir á vestrænni heimspeki sem slíkri og hefur t.d. ritað kennslurit á íslensku og ensku um vestræna hugmyndasögu í samvinnu við Ásdísi R. Magnúsdóttur (Hugmyndasaga og tungumál / Language and History of Ideas). Í bók Geirs sem kom út hjá State University of New York Press í janúar 2015, Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation, er umfjöllunarefnið konfúsíanísk menntaheimspeki en þar leitar hann fanga í heimspeki fjölmargra vestrænna höfunda, þ.á m. Hegel, Weber, Gadamer, Whitehead, Dewey og Bourdieu, til að auðga viðfangsefnið enn frekar og efna til heimspekilegrar samræðu milli ólíkra hefða.

Á næstu misserum hyggst Geir einbeita sér að því að gera kínverska heimspeki aðgengilega íslenskum lesendum og stefnir í því skyni að vinnslu íslenskrar þýðingar á kínverska fornritinu Herstjórnarlist Sunzi sem og rits á íslensku um kínverska heimspeki sem er ætlað að höfða til jafnt leikra sem lærða.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir

Mannskilningur - náttúruskilningur - sjálfsskilningur: Mikilvægi skynjaðrar þekkingar í þverfræðilegu samtali um umhverfismál Í verkefninu, sem staðsett er innan umhverfishugvísinda, vinn ég að heimspekilegum rannsóknum á sambandi manns og náttúru, m.a. eins og það birtist í málefnum sem varða menntun, náttúruvernd og ákvarðanatöku í umhverfismálum. Markmið verkefnisins er að auka fræðilegan og almennan skilning á þeim gildum sem eiga rætur sínar í margvíslegum tengslum manns og náttúru. Ein af grundvallarforsendum þess að auka slíkan skilning felst í að auka veg skynjaðrar þekkingar á tengslum manns og náttúru til jafns við þá röklegu og vísindalegu þekkingu sem hefur hingað til leikið aðalhlutverkið í glímu mannkyns við loftslags- og umhverfisvandann sem blasir við. Þær vísindalegu og vitsmunamiðuðu nálganir sem hafa verið í forgrunni í viðleitni til þess að breyta viðhorfum almennings til umhverfisins þannig að breytinga verði vart í hegðun, duga ekki til þess að auðga og dýpka skilning okkar á náttúrunni og stað okkar innan hennar. Því er brýnt að leita annarra leiða, og þar leika rannsóknir á sviði umhverfishugvísinda og lista, sem varpa ljósi á gildi og hlutverk skynjaðrar þekkingar, lykilhlutverk. Í verkefninu er leitast við að skapa grundvöll til samstarfs á milli rannsakenda og nemenda á sviði umhverfishugvísinda og lista með því markmiði að efla hlut skynjaðrar þekkingar í fræðslu og umræðu um umhverfismál.

Tímabil rannsóknar: 2015 - 2021

Hrafn Ásgeirsson, nýdoktor (hrafnas@hi.is).

RANNÍS verkefni, 2014-2016 (verkefni lokið): The Pro Tanto view about legal content: On the nature of the relationship between law and language / Pro Tanto hugmyndin um innihald laga: Um tengsl laga og tungumáls.

Það er ævarandi álitamál hvernig túlka beri lög, bæði meðal fræðimanna og meðal þeirra sem starfa við lög. Þar sem hefðbundin lagasetning er tegund af málgjörð er hins vegar mjög eðlilegt að hugsa sem svo að innihald settra laga ráðist af því sem löggjafinn segir. Slíka hugmynd getum við kallað “segðarkenningu” um innihald laga. Eins og Mark Greenberg hefur bent á, þá er þessi kenning afleiðing af tiltekinni hugmynd um eðli yfirvalds og lagasetningar: Setji réttmætt yfirvald fyrirmæli um eitthvað, þá ber fólki að hlýða þeim einfaldlega vegna þess að yfirvaldið setti þau. Ef það er rétt hjá Greenberg að þessi hugmynd lýsi viðteknu viðhorfi hjá réttarheimspekingum samtímans, þá veltur afar mikið á því hvort segðarkenningin stenst.

Vandinn er sá að mýmörg dæmi eru til þar sem misræmi virðist vera milli þess hver lögin eru og þess hvað löggjafinn hefur sagt. Markmið verkefnisins er að þróa segðarkenningu sem útskýrir hvers vegna svo virðist vera og sem ekki verður fyrir barðinu á þeim vandamálum sem hrjá aðrar segðarkenningar. Kosturinn við slíka kenningu er að hún myndi leyfa okkur að halda í margt sem okkur er tamt að hugsa varðandi tengslin milli laga, tungumáls og yfirvalds, auk þess að leiðbeina okkur um hvernig túlka skuli lög. Eins myndi kenningin gegna lykilhlutverki í því að skýra eitt markverðasta félagslega fyrirbæri sem til er. Þá yrðu málspeki og málvísindi einnig lykiltól til lagatúlkunar, sem opnar fyrir samfélagslega mikilvægar þverfaglegar rannsóknir.

Huginn Freyr Þorsteinsson

Rannsóknir Hugins í heimspeki snúast um að skýra tilvísun fræðiheita í vísindum og vísindalega hluthyggju (e. scientific realism). Beinir hann sérstaklega sjónum sínum að fræðiheitum sem vísindasamfélagið hefur gefið upp á bátinn þar sem sérlega erfiðlega hefur reynst að útskýra tilvísun þessara hugtaka. Dæmi um slíkt hugtak er fræðiheitið „ljósvaki“ sem um tíma var notað í eðlisfræði til að skýra hreyfingu ljóss.

Leitast er við að svara þeirri spurningu um hvers konar kenning í merkingarfræði dugar til að skýra þessi hugtök. Reynir Huginn að þróa tvær mögulegar leiðir bæði út frá lýsingakenningu um merkingu og orsakakenningu um merkingu og reynt að bregðast við þekktum vandkvæðum á þessum kenningum við að útskýra fræðiheiti. Þá hefur Huginn einnig rannsakað sérstaklega flógiston kenninguna í efnafræði sem var undanfari súrefniskenningarinnar á 18. öld og hugmyndir Karl Popper og Thomas Kuhn um eðli vísinda.

Einnig geta stundakennarar, sérfræðingar og styrkþegar stofnunarinnar, doktorsnemar í heimspeki og aðrir kennarar við Háskóla Íslands sem starfa á fræðasviðinu sótt um og fengið aðild að stofnuninni, með samþykki stjórnar, á meðan þeir eru í námi eða starfa við Háskólann.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is