Háskóli Íslands

Er fræðaheimurinn bergmálshellir?

RUV 05.04.2017:

Í síðustu viku var haldið málþing í Háskóla Íslands, um femíníska heimspeki. Ein af þeim sem þar kom fram var Kristie Dotson, prófessor við Michigan-háskóla. Hún heimsótti Víðsjá á leið á málþingið til að ræða um femíníska heimspeki.

Dotson skrifaði grein, árið 2012, sem bar titilinn How is This Paper Philosophy? þar sem hún gagnrýndi hugmyndir menntaðra heimspekinga um fræðigreinina. Grein Dotson fór eins og eldur um sinu um netheima og vakti miklar umræður.

Réttlætingarmenning

Í greininni gagnrýndi hún hið fræðilega heimspekisamfélag hún sagði svokallaða  „réttlætingarmenningu“ vera ríkjandi, þar sem fræðimenn sæktust einfaldlega í að lesa og fræðast um efni sem kallaðist á við þeirra eigin skoðanir - og til þess væri einnig ætlast af þeim, af fræðisamfélaginu. Annað væri hreinlega afskrifað. Fræðasamfélagið væri þannig hálfgerður bergmálshellir.

„Það er undarleg að ætlast til þess af einstaklingum, sem stunda þá fræðigrein sem einmitt á að fjalla um víddir hugans og óbeislaða gagnrýni, að finna einungis upp á verkefnum sem eru viðurkennd af stöðlum samfélagsins. Mér finnst skrýtið að fólk búist við því að rannsóknir mínar séu nákvæmlega það sem það vill að þær séu,“ segir Dotson.

Allir stunda heimspeki

Femínísk heimspeki hefur breytt fræðasamfélaginu töluvert, en stéttaskipting sé þar enn talsverð. Dotson segir til dæmis aðeins örfáar svartar konur tilheyra fræðasamfélagi heimspekinga og þær eigi þar erfitt uppdráttar. Hún segir sannarlega mikilvægt að endurhugsa hverjir geti verið heimspekingar en ekki síður, hvað heimspeki er.

„Ég held að heimspeki sé ein af grunnathöfnum mannsins. Ég held að allir búi yfir heimspeki, punktur. Ef þú hefur einhvern tímann staldrað við og íhugað hvað er að gerast í kringum þig, og þurft að taka skref aftur á bak til þess að hugsa um það, þá byrjaðir þú samstundis að hugsa heimspekilega. Allir stunda heimspeki, svo það er vafasamt þegar heimspekingar eru einfaldaðir niður í hóp af dauðum gaurum.“

Í viðtalinu ræddum við frekar um femíníska heimspeki, hugmyndina um heimspekinginn, valdapýramídann, minnihlutahópa og málsvara þeirra. Viðtalið má heyra í heild sinni hér.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is